Erlent

Fjöldi manns mótmælir í Kaíró

Átök í Kaíró Að nokkru snerist mótmælafundurinn upp í átök við lögreglu.
nordicphotos/AFP
Átök í Kaíró Að nokkru snerist mótmælafundurinn upp í átök við lögreglu. nordicphotos/AFP
Á annað hundrað manns særðust í átökum í Kaíró í gær. Átökin tengdust mótmælum sem stjórnarandstæðingar efndu til í tilefni þess að tvö ár voru liðin frá því uppreisnin gegn Hosni Mubarak hófst.

Tugir þúsunda tóku þátt í mótmælunum og sýndu óánægju sína með þá stjórn sem nú er við völd og tengist Bræðralagi múslíma nánum böndum.

„Í dag heldur egypska þjóðin áfram byltingu sinni,“ sagði Hamdeen Sabahi, sem varð þriðji í forsetakosningunum síðastliðið sumar.

Annar af helstu leiðtogum stjórnarandstöðunnar, Mohammed El Baradei, tók einnig þátt í mótmælunum og hvatti Egypta til að halda áfram þeirri byltingu sem hófst fyrir tveimur árum.

Óánægjan beinist ekki síst að stjórnarskránni, sem Mohammed Morsi forseti og íslamistaflokkur hans hröðuðu í gegnum þingið í desember.

Morsi er gagnrýndur fyrir að haga sér eins og Mubarak gerði, en sjálfur segist Morsi vera að tryggja að markmið byltingarinnar náist.- gb




Fleiri fréttir

Sjá meira


×