Erlent

Ákærður hagstofustjóri neitar að víkja

Grikkir fóru mjög illa út úr heimskreppunni og ástandið þar var eldfimt um langa hríð. Nordiphotos/afp
Grikkir fóru mjög illa út úr heimskreppunni og ástandið þar var eldfimt um langa hríð. Nordiphotos/afp
Gríski hagstofustjórinn, Andreas Georgiou, sætir nú miklum þrýstingi frá undirmönnum sínum um að segja af sér. Hann verst ákæru fyrir að falsa tölfræðiupplýsingar um efnahag landsins og það þykir rýra traust stofnunarinnar. Hann neitar hins vegar að víkja.

Ákæran er á hendur honum og tveimur öðrum starfsmönnum ELSTAT, hagstofu Grikklands. Hún snýr að því að þeir hafi vísvitandi falsað gögn fyrir árið 2009 í því skyni að láta kreppuna þar í landi virðast mun dýpri en hún í raun var og reka Grikki með því í fangið á Alþjóðagjaldeyrissjóðnum. Að baki býr sú kenning að allt hafi þetta verið samsæri Þjóðverja til að réttlæta þau ströngu efnahagslegu skilyrði sem fylgdu björgunarpakkanum frá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum.

Bæði gríska ríkið og Eurostat, tölfræðistofnun Evrópusambandsins, hafa varið Georgiou og sagt að útreikningar ELSTAT hafi verið í samræmi við þeirra staðla, þótt það sé viðurkennt að í þeim hafi verið skekkjur.

Verði Georgiou fundinn sekur á hann yfir höfði sér minnst fimm ára fangelsi. - sh




Fleiri fréttir

Sjá meira


×