Erlent

Óvissa um afdrif 30 gísla

Þórunn Elísabet Bogadóttir skrifar
Gíslarnir voru fegnir eftir að hafa verið frelsaðir af alsírska hernum. Alls voru um 650 gíslar frelsaðir og þessi skjámynd af frétt sjónvarpsstöðvarinnar Al-Jazairia 3 gær sýnir hluta þeirra.
Gíslarnir voru fegnir eftir að hafa verið frelsaðir af alsírska hernum. Alls voru um 650 gíslar frelsaðir og þessi skjámynd af frétt sjónvarpsstöðvarinnar Al-Jazairia 3 gær sýnir hluta þeirra. nordicphotos/afp
Enn var ekkert vitað um afdrif um þrjátíu starfsmanna í gasvinnslustöð í Alsír í gærkvöldi. Hryðjuverkamenn segja gíslatökuna vegna hernaðarafskipta Frakka í nágrannaríkinu Malí. Um 650 gíslar voru frelsaðir í gær.

Ekkert var vitað um afdrif um þrjátíu manna sem voru teknir sem gíslar í In Amenas-gasvinnslustöðinni í Alsír á miðvikudag, þegar Fréttablaðið fór í prentun í gærkvöldi. Ríkisfjölmiðill í Alsír sagði að um 650 gíslar hefðu sloppið úr klóm mannræningjanna.

APS-fréttastofan, sem er ríkisfjölmiðill, sagði að 573 Alsírbúar og um 100 af þeim 132 erlendum starfsmönnum gasvinnslustöðvarinnar hefði verið bjargað. Nákvæmur fjöldi þeirra sem voru teknir í gíslingu var enn á reiki í gærkvöldi. Talið var að einhverjir starfsmenn hafi falið sig í vinnslustöðinni, sem er gríðarlega stór.

Hryðjuverkamenn tengdir hryðjuverkasamtökunum al-Kaída standa fyrir gíslatökunni, sem hófst á miðvikudagsmorgun í þessari afskekktu vinnslustöð nálægt landamærunum við Líbíu. Breska olíufyrirtækið BP og norska olíufyrirtækið Statoil reka gasvinnslustöðina ásamt Sonatrach, ríkisolíufélagi Alsírs.

Á fimmtudag réðust svo stjórnarhermenn inn í vinnslustöðina til þess að reyna að frelsa gíslana. Yfirvöld í Alsír segja að í þeirri atlögu hafi tveir Bretar og tveir Filippseyingar látist, og að tölur hryðjuverkamannanna um mannfall væru ýktar, en talsmaður hryðjuverkamannanna sagði við fjölmiðla að 35 gíslar og fimmtán hryðjuverkamenn hefðu látist.

Hryðjuverkamennirnir buðu í gær að þeir myndu sleppa tveimur bandarískum gíslum í skiptum fyrir að Bandaríkjamenn slepptu tveimur hryðjuverkamönnum sem eru þar í fangelsi, samkvæmt fréttatilkynningu sem send var fréttastofunni ANI í Máritaníu. Þá sagði talsmaður þeirra að frekari árásir yrðu gerðar. Hann varaði alla Alsírbúa við því að vera nálægt byggingum erlendra fyrirtækja, þar sem árásir yrðu gerðar þar sem fólk ætti síst von á þeim.

Stjórnmálaskýrendur segja að yfirvöld í þeim ríkjum sem eiga starfsmenn í Alsír séu reið vegna viðbragða alsírskra yfirvalda. Sú reiði verði þó ekki látin almennilega í ljós opinberlega vegna mikilvægis þátttöku Alsírs í stríðinu gegn hryðjuverkum auk þess sem olíu- og gaslindir landsins eru mikilvægar mörgum vestrænum ríkjum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×