Erlent

Þrjár kúrdískar konur fundust myrtar í París

Hundruð manna söfnuðust saman fyrir utan miðstöð Kúrda í París í gær.
Hundruð manna söfnuðust saman fyrir utan miðstöð Kúrda í París í gær. nordicphotos/AFP
Hundruð Kúrda í París söfnuðust í gær saman fyrir utan miðstöð Kúrda þar sem þrjár konur fundust myrtar í fyrrinótt. Innanríkisráðherra Frakka segir konurnar hafa verið teknar af lífi. Daginn áður höfðu Tyrkir gert friðarsamning við Kúrda.

Þrjár konur fundust myrtar í upplýsingamiðstöð Kúrda í París í fyrrinótt. Manuel Valls, innanríkisráðherra Frakklands, segir að konurnar hafi hreinlega verið teknar af lífi.

Hinar myrtu voru Kúrdar. Ein þeirra var Sakine Cansiz, sem tók árið 1978 þátt í að stofna Verkamannaflokk Kúrdistans (PKK), samtök sem hafa síðan 1984 barist fyrir stofnun sjálfstæðs ríkis Kúrda í austurhluta Tyrklands. Stjórnvöld í Tyrklandi, Bandaríkjunum, Evrópusambandinu og fleiri ríkjum flokka þessi samtök sem hryðjuverkasamtök.

Hinar konurnar tvær voru Fidan Dogan, starfsmaður upplýsingamiðstöðvarinnar, og Leyla Soylemez.

Konurnar þrjár höfðu verið einar í upplýsingamiðstöðinni á miðvikudaginn. Ekki náðist samband við þær símleiðis og því héldu vinir þeirra á vettvang stuttu eftir miðnætti. Þeir þurftu að brjótast inn um dyr til að komast inn og fundu þá líkin. Tvær kvennanna voru með skotsár á hálsi en sú þriðja á enni og maga.

Allt er á huldu um ástæðu morðanna.

Fljótlega eftir að fréttist af morðunum héldu hundruð Kúrda á vettvang og söfnuðust saman í götunni fyrir utan upplýsingamiðstöðina, sem er í tíunda hverfi Parísarborgar. Fjölmargir Kúrdar búa í Frakklandi, einkum á höfuðborgarsvæðinu. Franska lögreglan hefur nokkrum sinnum handtekið Kúrda sem grunaðir eru um að hafa útvegað PKK fé með ólögmætum hætti. Sama dag og konurnar voru myrtar höfðu tyrkneskir fjölmiðlar skýrt frá því að samkomulag hefði tekist milli tyrkneskra stjórnvalda og Abdullah Öcalan, stofnanda og helsta leiðtoga PKK, en Öcalan hefur verið í fangelsi síðan 1999.

Tyrknesk stjórnvöld hafa oft sakað bæði Frakka, Þjóðverja og Hollendinga um að styðja PKK, meðal annars með því að framselja ekki grunaða hryðjuverkamenn til Tyrklands.gudsteinn@frettabladid.is




Fleiri fréttir

Sjá meira


×