Innlent

Egyptaland: Herinn skaut á óbreytta borgara við bænahald

Hrund Þórsdóttir skrifar
Yfir 30 manns hafa látist og vel yfir eitt þúsund eru sárir vegna átaka í Egyptalandi í kjölfar þess að herinn steypti forseta landsins, Mohamed Morsi, af stóli á miðvikudaginn. Í meðfylgjandi frétt sjást myndir af því þegar herinn skaut á almenna borgara við bænahald.

Ekkert lát er á harkalegum átökum milli stuðningsmanna forsetans fyrrverandi og andstæðinga hans, víða um Egyptaland. Morsi situr í stofufangelsi og allir helstu leiðtogar Bræðralags Múslima hafa verið handteknir.

Hávær mótmæli héldu áfram í dag og stuðningsmenn forsetans fyrrverandi söfnuðust saman við mosku Bræðralagsins í Kaíró. Á meðan á látunum stóð héldu réttarhöldin yfir Hosni Mubarak, fyrrum forseta sem hrakinn var frá völdum í byltingunni árið 2011, áfram án þess að valdatakan gegn kjörnum eftirmanni hans hefði þar nokkur áhrif á.

Í ófriðarástandinu er enginn óhultur og meðfylgjandi myndir sýna þegar skotið var á stuðningsmenn Morsi þar sem þeir báðust fyrir í borginni El Arish á Sínaískaganum í gær. Sagt er að herinn hafi verið þarna að verki og að sögn Bræðralags múslima særðust 40 manns. Sú tala hefur þó ekki fengist staðfest.

Ekki er útlit fyrir að öldurnar lægi í bráð og hafa andstæðingar forsetans fyrrverandi boðað til mótmæla á morgun.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×