Erlent

Kærður fyrir að vera nakinn heima fyrir

Jóhannes Stefánsson skrifar
Maðurinn segist mögulega hafa gleymt að draga fyrir
Maðurinn segist mögulega hafa gleymt að draga fyrir Mynd/ Getty
Kæra var lögð fram á hendur sænskum manni eftir að kona sem gekk fram hjá heimili hans tilkynnti hann til lögreglu. Konan tjáði lögreglu að hún hefði orðið fyrir kynferðislegri árás af hálfu mannsins og fór fram á 9.000,- sænskar krónur í bætur. Maðurinn var sýknaður af ákærunni fyrir héraðsdómstól.

Konan sagðist hafa séð manninn standandi nakinn í fjögur skipti inn um glugga á heimili mannsins. Konan hafði í tveim tilfellum haft eiginmann sinn með sem hafi tekið atvikið upp á myndband. Fyrir rétti sagði konan að hún væri mjög niðri fyrir því hún hafi séð manninn stunda sjálfsfróun. Maðurinn neitaði og sagðist ekki hafa ætlað að bera sig, en sagðist ef til vill hafa gleymt að draga fyrir gluggatjöld.

Maðurinn var sýknaður í héraði vegna þess að konan og eiginmaður hennar voru ekki nægilega nálægt húsinu, en limgerði skildi þau frá húsi mannsins. Þá þótti ekki sýnt fram á að maðurinn hefði verið að stunda sjálfsfróun.

Sambærilegt mál kom upp í Huskvarna, þar sem maður var sakfelldur fyrir kynferðislegt ofbeldi eftir að hafa ítrekað stundað sjálfsfróun í augsýn nágranna sinna. Dómstóll í Göta sagði að ekki væri ólöglegt að stunda kynlífsathafnir inni á heimili sínu en í málinu hafi húsið verið sem einskonar svið og hann í allra augsýn stundað sjálfsfróunina.

Sjá frétt DN.se um málið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×