Barcelona vann 1-0 sigur á Levante í spænsku úrvalsdeildinni í knattspyrnu í kvöld. Cesc Fabregas skoraði sigurmarkið skömmu fyrir leikslok.
Barcelona var töluvert sterkari aðilinn í leiknum sem var ekki mikið fyrir augað. Börsungar fengu gott tækifæri til að komast yfir eftir sautján mínútur þegar þeir fengu vítaspyrnu. David Villa fór á punktinn en spyrnan var varin.
Stuðningsmenn Barca þurftu að bíða fram á 84. mínútu eftir markinu. Þá skoraði Cesc Fabregas með hnitmiðuðu skoti úr teignum og tryggði Barcelona sigur.
Barcelona hefur 84 stig í toppsæti deildarinnar en Levante siglir lygnan sjó með 40 stig í 12. sæti.

