Ekkert virðist þokast í samningaátt í Washington höfuðborg Bandaríkjanna þar sem þingmenn og fulltrúar í Öldungadeild þingsins takast hart á.
Deilan snýst í grunninn um lög Baracks Obama forseta sem tóku gildi í gær og fjalla um sjúkratryggingar. Gríðarleg andstaða er við þau innan fulltrúadeildarinnar og fyrir vikið neituðu þingmenn að framlengja fjárheimildir til ríkisstofnana sem veldur því að ýmsum stofnunum hefur hreinlega verið lokað.
Utanríkisráðuneytið íslenska bendir fólki sem sé á leið til Bandaríkjanna á næstunni að hafa þetta í huga því ferðamenn munu koma að lokuðum dyrum um land allt. Sem dæmi um vinsæla staði sem lokaðir eru, má nefna Frelsisstyttuna, Smithsonian safnið í Washington og Alcatraz fangelsið í San Franscisco flóa.

