Erlent

Twitter býður upp á myndbandatíst

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Dick Costolo, framkvæmdastjóri samskiptamiðilsins Twitter, hefur birt fyrsta myndbandatístið í sögu miðilsins.

Myndbandið var birt með aðstoð smáforrits (e. app) frá tæknifyrirtækinu Vine en Twitter keypti fyrirtækið á nýliðnu ári. Notendum miðilsins verður ekki kleift að nýta sér möguleikann enn sem komið er en hámarkslengd myndbandsins verður sex sekúndur.

Í myndbandi Costolo sýnir hann fólki hvernig kjötrétturinn „steak tartare" er reiddur fram. Myndbandið má sjá hér.

Skiptar skoðanir eru um nýja möguleikann sem bjóðast mun Twitter-notendum innan skamms. Álitsgjafar fréttavefs BBC segja meðal annars áhugavert hve langan tíma hafi tekið að gera kleift að birta stutt myndbönd.

Einnig er þeirri spurningu velt upp hvernig Twitter muni koma í veg fyrir að notendur deili ósæmilegum myndböndum. Þá benda aðrir á að myndbandið hætti aldrei að spilast og það getið farið í taugarnar á notendum.

„Ég tæki vel á móti myndbandi í einu tísti af fimmtán en endalaus myndbönd yrðu pirrandi," segir Adrian Drury hjá rannsóknarfyrirtækinu Ovum.

Umfjöllun BBC um málið má sjá hér.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×