SönderjyskE er úr leik í bikarnum eftir tap í vítakeppni á móti b-deildarliði Fredericia í kvöld í 32 liða úrslitum dönsku bikarkeppninar í fótbolta. Hallgrímur Jónasson skoraði mark SönderjyskE í leiknum en klikkaði síðan á víti í vítakeppninni.
Hallgrímur Jónasson tryggði SönderjyskE framlengingu þegar hann jafnaði í 1-1 í uppbótartíma en Jesper Christiansen kom Fredericia í 1-0 á 68. mínútu leiksins.
Hallgrímur og Nicolaj Madsen klikkuðu á vítum fyrir SönderjyskE og liðið varð að sætta sig við að bikarinn er úr sögunni.
