Erlent

Kötturinn Freyja grunuð um njósnir

Heimir Már Pétursson skrifar
Kötturinn Freyja þarna á vappi fyrir framan Downingsstræti 11.
Kötturinn Freyja þarna á vappi fyrir framan Downingsstræti 11.

Freyja, sem er köttur George Osborne fjármálaráðherra Bretlands er nú grunuð um njósnir eftir að hún birtist skyndilega í húsakynnum ráðherrans í Downingstræti 11 eftir að hafa horfið í tvö ár.

Freyja liggur undir grun vegna þess að á þeim tveimur árum sem hún var í burtu frá heimili sínu sá fólk hana á grunsamlegum stöðum í Downingstræti, meðal annars í kring um utanríkisráðuneytið og jafnvel í ríkisstjórnarherberginu í húsakynnum forsætisráðherrans, David Cameron, í Downingstræti tíu.

Þá er hún grunuð um að hafa reynt að komast inn í fjármálaráðuneytið, en White Hall stjórnarbygging helstu ráðuneyta er í næsta nágrenni við heimili fjármála- og forsætisráðherranna.

Einn þingmanna Íhaldsflokksins segir í viðtali við Daily Telegraph ýmsa halda því fram að Freyja sé á mála hjá Kínverjum. Hún komist út um allt í stjórnsýslunni og ef festur yrði við hana hlerunarbúnaður mætti komast að öllum helstu trúnaðarmálum breskra stjórnvalda.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×