Erlent

Hundruð þúsunda heimila rafmagnslaus yfir jólin

Samúel Karl Ólason skrifar
Mikill fjöldi rafmagnsstaura brotnaði í storminum sem fór yfir austurhluta Kanada.
Mikill fjöldi rafmagnsstaura brotnaði í storminum sem fór yfir austurhluta Kanada. Mynd/EPA
Hundruð þúsunda heimila eru rafmagnslaus í austurhluta Kanada og í Michigan ríki í Bandaríkjunum eftir að stormur fór yfir svæðið. Við storminn myndaðist 10-33 millimetra ísing víðsvegar svo mikill fjöldi rafmagnsstaura brotnaði.

Frá þessu er sagt á vef BBC.

Um er að ræða 400.000 heimili í Kanada og 280.000 í Michigan. Í Toronto í Kanada er vonast til að flestum viðgerðum verði lokið á fimmtudaginn, en þó mun rafmagn ekki komast aftur á einhver heimili fyrr en eftir helgi. Því er ljóst að gífurlegur fjöldi fólks mun ekki hafa rafmagn né hita um jólin.

Spáð er að hitastigið fari í allt að 15 stiga frost á svæðinu og er búið að opna neyðarskýli víðsvegar um Toronto. Að minnsta kosti ellefu hafa látið lífið vegna veðursins og þar af fimm í bílslysum á ísilögðum vegum.

Fréttaritari BBC segir íbúa Toronto vana snjó en þessi stormur hafi verið óvenjulegur og hættulegur. „Nánast hver trjágrein er þakin ís. Margar götur eru lokaðar vegna fallinna trjáa og búið er að merkja fallnar raflínur með gulu límbandi.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×