Erlent

Skilaði ostinum og flugþjónninn trylltist

Haukur Viðar Alfreðsson skrifar
Talsmaður Ryanair að málið sé í rannsókn og sé litið alvarlegum augum.
Talsmaður Ryanair að málið sé í rannsókn og sé litið alvarlegum augum. mynd/getty
Flugþjónn hjá Ryanair trylltist í flugi á leið frá Lundúnum til Písa þegar farþegi skilaði osti og kexi sem honum þótti of dýrt.

„Fuck you,“ öskraði flugþjónninn í sífellu þrátt fyrir að farþeginn, faðir á fimmtugsaldri, hefði skilað pakkanum kurteisislega. Hann innihélt tvær kexkökur og lítilræði af osti og kostaði um 800 krónur íslenskar. „Þessir peningar borga fyrir ódýra flugið þitt,“ bætti flugþjónninn við.

Þegar vélin lenti í Písa reyndi farþeginn að fá flugþjóninn til að gefa sér upp nafn sitt svo hann gæti kvartað, en þá reyndi flugþjóninn að ýta honum úr vélinni, að sögn farþegans.

Farþeginn, sem er frá Róm, segir hegðun flugþjónsins óásættanlega. Hann segist hafa tjáð flugþjóninum að hann hefði tekið atvikið upp á myndband með síma sínum og þá hafi flugþjónninn haldið áfram að öskra á sig.

Að sögn Daily Mail hefur flugþjónninn sagt upp störfum og segir talsmaður flugfélagsins að málið sé í rannsókn og sé litið mjög alvarlegum augum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×