Erlent

Höndin saumuð við ökklann til að halda henni á lífi

Fanney Birna Jónsdóttir skrifar
Hönd Xiao var grædd á ökkla hans til að halda henni á lífi.
Hönd Xiao var grædd á ökkla hans til að halda henni á lífi. Mynd/Daily Mail
Kínverskur maður þurfti að láta græða hönd sína á ökklann til að halda henni lifandi áður en hægt var að festa hana aftur á handlegginn. Daily Mail greinir frá þessu.

Xiao Wei missti hægri hönd sían þann 10. nóvember í alvarlegu vinnuslysi.

Höndin var föst í vinnuvél en félagar hans leystu hana og var Xiao færður á sjúkrahús.

Læknar í heimahéraði Xiao töldu upphaflega að ómögulegt yrði að bjarga höndinni en vísuðu honum áfram á stærra sjúkrahús. Sjö klukkutímum eftir slysið kom Xiao á sjúkrahúsið í Changsha.

Læknar þar töldu að hægt væri að setja höndina aftur á handlegginn en ekki alveg strax. Því var höndin fest á ökkla Xiao til að koma í veg fyrir að hún dæi.

Daily Mail hefur eftir einum læknanna að meiðsli Xiao hefðu verið mjög alvarleg, fyrir utan að hafa rifnað af hefði höndin einnig flest út.

Um mánuði eftir slysið hafði Xiao jafnað sig nægilega til að hægt væri að framkvæma aðgerðina til að festa höndina aftur á handlegginn. Xiao mun þurfa margar aðgerðir til að ná góðum bata, en læknar eru öruggir um að hann muni ná aftur fullri hreyfigetu með höndinni.

Xiao mun þurfa margar aðgerðir en læknar telja að hann muni geta notað höndina á ný.Mynd/DailyMail



Fleiri fréttir

Sjá meira


×