Erlent

Nýbakaðar mæður of uppteknar í símanum

Erla Björg Gunnarsdóttir skrifar
Nýfædd börn hafa mikla þörf fyrir nærveru, augnsamband og að talað sé við þau.
Nýfædd börn hafa mikla þörf fyrir nærveru, augnsamband og að talað sé við þau. Mynd/Getty
Danskar ljósmæður hafa tekið höndum saman í átaki við að hjálpa nýbökuðum mæðrum að leggja frá sér gsm-símann og spjaldtölvur og einbeita sér að nýfæddu barni sínu. Þetta kemur fram á vef TV2.

Algengt vandamál á fæðingardeildum í Danmörku er að móðirin sé svo upptekin af því að senda myndir af nýfæddu barni sínu og uppfæra stöðu sína á Facebook að hún gleymir alveg að njóta nærverunnar með hvítvoðungnum.

„Ég get vel skilið að það sé gaman að senda myndir strax og monta sig á Facebook. En barnið á að fá athygli móður eftir fæðinguna. Það er mikilvægt fyrir tenginguna. Það er erfitt ef það er skjár á milli móður og barns þessar fyrstu stundir," segir Lene Skou Jensen, ljósmóðir.

Niels Peter Rygard, sálfræðingur, segir að ljósmæður um allt land hafi samband við sig vegna þessa vandamáls. Hann segir það geta skaðað barnið að síminn sé tekið framfyrir það.

„Börn hafa þörf fyrir að talað sé við þau, augnsamband og nærveru. Þroski heilans byggir á samskiptum við foreldrana og getur stöðvast ef ekki er átt samskipti við barnið," segir Rygard.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×