Innlent

Adolf Ingi: Ekki eina fórnarlamb eineltis á RÚV

Jakob Bjarnar skrifar
Adolf Ingi segir fleiri eineltismál en þau sem hann mátti sæta af hálfu yfirmanns íþróttadeildarinnar hafa komið upp innan RÚV -- hvar Berglind Bergþórsdóttir er mannauðsstjóri.
Adolf Ingi segir fleiri eineltismál en þau sem hann mátti sæta af hálfu yfirmanns íþróttadeildarinnar hafa komið upp innan RÚV -- hvar Berglind Bergþórsdóttir er mannauðsstjóri.

„Því miður er ég ekki eina dæmið hjá RÚV. Fyrir nokkru þurfti fyrirtækið að greiða starfsmanni þriggja ára laun vegna eineltis og það eru fleiri dæmi sem hægt er að tína til. Kannski verður það gert,“ segir Adolf Ingi Erlingsson í athugasemd við frétt um einelti sem hann mátti sæta árum saman innan Ríkisútvarpsins.

Guðmundur Benediktsson, fyrrverandi þulur á Rás 1, staðfestir orð Adolfs, í athugasemdakerfinu og segir: „Þetta er því miður sannleikanum samkvæmt og eitt af fjölmörgum eineltismálum sem hafa fengið að grassera í þessari stofnun þar sem hinn svokallaði mannauðsstjóri hefur „kóað“ út í hið óendanlega með yfirmönnum.“

Samkvæmt heimildum Vísis varðar málið sem Adolf Ingi vísar til það er yfirstjórnin gerði sig seka um þau mistök að segja upp starfsmanni sem jafnframt var trúnaðarmaður. Þar með voru lög brotin og til að leysa málið þurfti stofnunin að greiða þeim starfsmanni þriggja ára biðlaun. Þá mun lögmaður BHM hafa átt fund með yfirstjórn Ríkisútvarpsins með það fyrir augum að semja um starfslok Adolfs Inga en þeir sem sjá um þessi mál fyrir hönd Ríkisútvarpsins, eru harðir á því að halda sig við ákvæði uppsagnarinnar sem kveða á um að Adolf Ingi fái einungis þriggja mánaða uppsagnarfrest greiddan, í raun aðeins tvo samkvæmt gömlum samningum var Adolf Ingi á fyrirframgreiddum launum, eins og tíðkaðist þegar hann samdi við Ríkisútvarpið.

Viðbrögð við frétt Vísis hafa verið mikil og þannig skrifar Guðmundur Þórður Guðmundsson, fyrrverandi landsliðsþjálfari handknattleikslandsliðs karla, hálfgildings stuðningsyfirlýsingu við Adolf í athugasemd: „Ég á eftir að sakna Adolfs Inga á RÚV. Adolf Ingi er drengur góður og framúrskarandi íþróttafréttamaður.“ Þá stingur Auðun Georg Ólafsson, fyrrverandi fréttastjóri Ríkisútvarpsins jafnframt niður penna: „Bestu kveðjur til Adolfs Inga sem hefur verið í uppáhaldi hjá mér í mörg ár. Einelti á aldrei að líðast.“

Mannauðsstjóri Ríkisútvarpsins heitir Berglind Bergþórsdóttir. Hún sagðist ekki hafa séð frétt Vísis í samtali við blaðamann, hún hafi verið niðursokkin í annað. Þá sagðist hún ekki ætla að tjá sig um málefni einstakra starfsmanna. Þegar Berglind var spurð, í ljósi orða Adolfs Inga, hvort mörg eineltismál hafi komið upp innan stofnunarinnar, sem má heita almenn spurning, sagðist Berglind ekki ætla að tjá sig um málið.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×