Fótbolti

Nasistakveðjur Króata skyggja á sigurinn á Íslandi

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Leikmenn Króata fagna sigrinum á Íslandi.
Leikmenn Króata fagna sigrinum á Íslandi. Mynd/AP
Josip Simunic, varnarmaður Króatíu og fjölmargir stuðningsmenn króatíska landsliðsins hafa verið sakaðir um að nota fræga nasistakveðju til þess að fagna sigrinum á Íslandi í gær en með honum tryggði króatíska landsliðið sér sæti á HM í fótbolta í Brasilíu næsta sumar.

Það er til myndband af Josip Simunic þar sem hann tekur hljóðnema eftir leikinn og kallar til hörðustu stuðningsmannanna: „Fyrir ættjörðina." Stuðningsmennirnir svöruðu á móti: „Tilbúnir."

Þetta er frægt frá dögum Ustase-hreyfingarinnar sem var Nasistahreyfing sem réði ríkjum í seinni heimsstyrjöldinni þegar þúsundir gyðinga, Serba og aðrir létust í útrýmingarbúðum í Króatíu.

„Sumir þurfa að fara að læra söguna. Ég óttast ekkert," sagði hinn 35 ára gamli Josip Simunic og bætti síðan við: „Ég gerði ekkert rangt. Ég er að styðja mitt land, Króatíu, mína ættjörð. Ef einhver hefur eitthvað við það að athuga þá er það þeirra vandamál," sagði Simunic.

Josip Simunic sendi líka frá sér yfirlýsingu á heimasíðu Dinamo Zagreb þar sem Dinamo Simunic hafnaði með öllu að þetta hafi verið pólitísk kveðja og hún hafi aðeins snúist um ást hans á sínu fólki og sinni þjóð en ekki um hatur eða eyðileggingu.

Josip Simunic lék sinn 105. landsleik á móti Íslandi en eitt af þremur mörkum hans fyrir landsliðið kom í landsleik á móti Íslandi árið 2005.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×