Erlent

Skotar kynna ítarleg sjálfstæðisáform

Guðsteinn Bjarnason skrifar
Alex Salmond, forsætisráðherra heimastjórnar Skotlands.
Alex Salmond, forsætisráðherra heimastjórnar Skotlands. Mynd/EPA
Skoska heimastjórnin kynnti í morgun 670 blaðsíðna skýrslu um sjálfstæðisáform sín. Skotar ganga til kosninga í haust, þar sem ákveðið verður hvort landið segi skilið við Bretland.

Alex Salmond, forsætisráðherra heimastjórnarinnar, sagði skýrslunna vera ítarlegustu sjálfstæðisáætlun sem nokkur þjóð hafi lagt fram í sögunni.

Þarna sé að finna grunninn að því, hvernig Skotland geti orðið sjálfstætt ríki, en samt verið áfram í góðum tengslum við bæði Bretland og Evrópusambandið.

Í október árið 2012 undirrituðu þeir Salmond og David Cameron, forsætisráðherra Bretlands, samkomulag um að Skotar geti haldið þjóðaratkvæðagreiðslu um sjálfstæði, og verði hún samþykkt geti landið fengið sjálfstæði á seinni hluta ársins 2014.

Búið er að ákveða að þjóðaratkvæðagreiðslan verði haldin 18. september á næsta ári.

Salmond hefur lengi barist fyrir því að Skotland verði sjálfstætt land, en samkvæmt skoðanakönnunum hefur vantað mikið upp á að hann hafi meirihlutastuðning fyrir því meðal landa sinna.

Hann vonast til þess að skýrslan, sem kynnt var í morgun, muni sannfæra meirihlutann um ágæti sjálfstæðis.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×