Innlent

„Þetta var erfiður fundur“

Páll Magnússon, útvarpsstjóri, í viðtali við Stöð 2 eftir fundinn í morgun.
Páll Magnússon, útvarpsstjóri, í viðtali við Stöð 2 eftir fundinn í morgun. Mynd/Stöð 2
„Þetta var erfiður fundur enda erfiðar aðgerðir,“ sagði Páll Magnússon útvarpsstjóri stuttu eftir að tilfinningaþrungnum fundi lauk í Útvarpshúsinu í dag.

Sextíu starfsmönnum hefur verið sagt upp á Ríkisútvarpinu og fundaði Páll með starfsmönnum RÚV klukkan ellefu í morgun. Eftir fundinn ræddi Páll við blaðamenn.

„Það var farið yfir þessar aðgerðir sem komu hér til framkvæmda í gær, og þær breytingar sem þessi niðurskurður hefur í för með sér fyrir reksturinn og dagskránna,“ sagði Páll.

Kemur til greina að draga þessar uppsagnir til baka?

„Ekki að óbreyttum tekjum, það er ekki okkar. Það sem við erum að takast á við hérna eru afleiðingar af ákvörðunum annarra. Ef forsendurnar breytast ekki höfum við ekki önnur tök en að bregðast við með þessum hætti,“ segir Páll.

Þá sagði hann að ástæðan fyrir því stofnunin hafi komist yfir niðurskurð síðustu fjögurra ára, sé að það hafi verið dregið mjög mikið saman í rekstrarkostnaði en ekki í dagskrárkostnaði.

„Við höfum alltaf látið dagskránna hafa forgang. Þessi aðgerð, eða niðurskurður af hálfu stjórnvalda, er af þeirri stærðargráðu að það var ekki lengur um umflúið að láta það bitna á dagskrá og fjölda starfsmanna,“ sagði Páll. 

Nánar verður fjallað um málið í kvöldfréttum Stöðvar 2 í kvöld.
Fleiri fréttir

Sjá meira


×