Erlent

Tvíburasystur fæddust með 87 daga millibili

Hanna Rún Sverrisdóttir skrifar
mynd/AFP
Tvíburasysturnar Amy og Katie frá Írlandi fæddust með 87 daga millibili. Þetta hefur verið skráð í heimsmetabók Guinness en þetta er lengsti tími sem hefur liðið milli tvíbura sem skráð hefur verið. Þetta kemur fram á Gizmodo.

Amy fæddist 1. júní á síðasta ári og Katie 27. ágúst.

Þar með var slegið nærri 20 ára gamalt met en tvíburarnir Hanna og Eric Lynn fæddust í Bandaríkjunum með 84 daga millibilið árin 1995 og 1996.

Maria Jones-Elliot, móðir Amy og Katie, var aðeins gengin 23 vikur með stúlkurnar þegar hún fékk hríðir. Hún varð að sjálfsögðu afar áhyggjufull. En læknar telja almennt að ekki sé hægt að bjarga börnum sem fæðast fyrir 24 viku meðgöngu.

Það er kraftaverk að börn sem fæðast jafn snemma og Amy lifi. Það er jafnvel enn meira kraftaverk að tvíburi sem fæðist svona snemma lifi.

Þegar Amy litla var komin í heiminn hættu samdráttarverkir hjá móður hennar og Katie var enn eftir inni. Slíkt getur verið hættulegt barninu sem eftir verður þar sem hætta er á sýkingu í legið. Því reyndu læknar að framkalla fæðinguna en þegar það tókst ekki ákváðu foreldrarnir að leyfa náttúrunni að sjá um þetta.

Báðar stúlkurnar eru heilbrigðar í dag þrátt fyrir erfiðleika við fæðingu og eftir fæðingu. Amy þurfti til dæmis að vera lengur á sjúkrahúsinu en yngri systir hennar vegna ýmissa kvilla sem hrjáðu hana vegna þess hve lítil hún var við fæðingu.

Í sömu frétt kemur fram að stysti tími sem liðið hefur á milli fæðinga, og þá er ekki tekið með þegar börn eru tekin með keisara, er tvær mínútur.

Til eru óstaðfest gögn um að lengri tími en 87 dagar hafi liðið milli fæðinga og það lengsta sem vitað er um, en ekki er staðfest, eru 97 dagar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×