Fótbolti

Ákvörðun um hvenær miðarnir færu í sölu var alfarið á höndum KSÍ

Stefán Árni Pálsson skrifar
mynd/vilhelm
Uppselt er á leik Íslands og Króatíu þann 15. nóvember á Laugardalsvelli. Miðasalan á leikinn hófst klukkan fjögur í nótt og var orðið uppselt fyrir klukkan átta um morguninn.

Margir hafa tjáð óánægju sína í dag en enginn fékk að vita klukkan hvað miðasalan færi í gang.

Þórir Hákonarson, framkvæmdarstjóri KSÍ, sagði í samtali við Vísi í morgun að ákvörðun hefði verið tekin í samráða við mida.is að hefja söluna um miðja nótt svo að kerfið myndi hreinlega ekki hrynja.

Gríðarleg eftirspurn var eftir miðum á leikinn og ljóst er að færri komast en vilja á þennan mikilvægasta landsleik í sögu íslenska karlalandsliðsins.

Að sögn Ólafs Thorarensen, framkvæmdastjóri Miða.is, hefði kerfið vel þolað álagið á miðasölunni í nótt. Það var einnig alfarið ákvörðun KSÍ að hefja miðasöluna um miðja nótt.

Hér að neðan má lesa yfirlýsingu frá vefsíðunni Miði.is:

Að gefnu tilefni vill Miði.is koma eftirfarandi á framfæri.

Miði.is tók að sér að selja miða á landsleik Íslands og Króatíu eins og aðra landsleiki fyrir KSÍ.  Ákvörðun um hvenær miðarnir færu í sölu var alfarið á höndum KSÍ.

Sölukerfi Miði.is er sett upp til að þola gríðarlegt álag og þótt allir miðarnir á leikinn hafi selst upp á tæpum 4 klukkutímum komu engir hnökrar upp í kerfinu.

Miði.is er bundinn trúnaði við KSÍ og getur engar upplýsingar gefið um fjölda miða eða annað sem snýr að miðasölu á þennan landsleik.

Virðingarfyllst, Ólafur Thorarensen, framkvæmdastjóri Miði.is






Fleiri fréttir

Sjá meira


×