Innlent

Mótun fjölskyldustefnu til ársins 2020

Haukur Viðar Alfreðsson skrifar
Eygló Harðardóttir, félags- og húsnæðismálaráðherra.
Eygló Harðardóttir, félags- og húsnæðismálaráðherra. mynd/365
Eygló Harðardóttir, félags- og húsnæðismálaráðherra, hefur skipað verkefnisstjórn sem falið er að móta fjölskyldustefnu til ársins 2020. Þetta kemur fram í tilkynningu frá ráðuneytinu. Formaður nefndarinnar er Guðrún Valdimarsdóttir hagfræðingur. Einnig verður skipaður samráðshópur til að tryggja breiða aðkomu og samráð hagsmunaaðila við mótun stefnunnar.

Byggist þetta á stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar um fjölskylduvænt samfélag þar sem allir þjóðfélagsþegnar eigi búa við jöfn tækifæri og öryggi og njóta lögvarinna réttinda. Samhliða stefnunni verður lögð fram aðgerðaáætlun.

í tilkynningunni segir að við mótun stefnunnar skuli meðal annars taka tillit til mismunandi fjölskyldugerða. Stefna skuli að því að tryggja félagslegan jöfnuð, að allar fjölskyldur njóti sama réttar og sé ekki mismunað á grundvelli kynþáttar, fötlunar, trúarbragða eða kynhneigðar. Leitað verði leiða til að tryggja efnahagslegt öryggi fjölskyldunnar og öryggi í húsnæðismálum. Unnið verði að því að tryggja jafnvægi á milli fjölskyldu- og atvinnulífs og að jafna ábyrgð foreldra á heimilishaldi og uppeldi barna. Leggja þurfi áherslu á að tryggja vernd gegn ofbeldi í nánum samböndum og vernd og stuðning vegna ofneyslu áfengis og annarra fíkniefna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×