Innlent

Forræðisdeila: Dönsk yfirvöld krefjast framsals Hjördísar Svan

Hrund Þórsdóttir skrifar
Yfirvöld í Danmörku hafa farið fram á að Hjördís Svan verði framseld, en hún hefur lengi staðið í harðvítugri forræðisdeilu við danskan barnsföður sinn. Gefin var út handtökuskipun gegn Hjördísi í morgun en hún var dregin til baka seinni partinn í dag.

Eins og greint var frá í fréttum í síðasta mánuði kom Hjördís þá með dætur sínar þrjár til Íslands, en barnsfaðir hennar, sem hefur fullt forræði yfir dætrunum, hefur krafist þess að börnin verði framseld til Danmerkur. Þar hefur Hjördís aðeins umgengnisrétt gagnvart þeim.

Hjördís hefur áður farið með dæturnar til Íslands og féllust dómstólar hér á landi þá á að stúlkurnar yrðu framseldar til Danmerkur á þeim grundvelli að dæma ætti í málinu þar í landi. Þær voru síðan fluttar til Danmerkur með lögregluvaldi en lögmenn Hjördísar hafa dregið réttmæti þess í efa og kært þá aðför til Mannréttindadómstóls Evrópu.

Þar sem Hjördís hefur umgengnisrétt var hún með börnin í sumar en átti að skila þeim 4. ágúst. Þess í stað fór hún með börnin til Íslands. Samkvæmt heimildum fréttastofu var í morgun gefin út handtökuskipan gegn Hjördísi í kjölfarið á framsalsbeiðni danskra stjórnvalda, en hún var dregin til baka þegar leið á daginn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×