Bandarískir stjórnmálamenn virðast litlu nær í að leysa þann hnút sem lamað hefur opinbera stjórnsýslu undanfarna átta daga. Áhrifa gætir víða, meðal annars í bandaríska sendiráðinu á Íslandi.
Áttunda daginn í röð liggja fjárlög Bandaríkjanna ósamþykkt og á meðan er mestöll stjórnsýsla í lamasessi. Barack Obama, forseti Bandaríkjanna og John Boehner, leiðtogi meirihlutans í fulltrúadeildarinnar sögðu reyndar báðir í gær að þeir vildu setjast niður og komast að samkomulagi en stjórnmálaskýrendur vestra telja að mun meira þurfi til. Til að mynda setti Obama skýr skilyrði fyrir samningafundi á blaðamannafundi í gær.
Áhrifa af ástandinu í Bandaríkjunum gætir víða, meðal annars í bandaríska sendiráðinu við Laufásveg. Þar eru enn afgreiddar umsóknir um dvalarleyfi og vegabréf fyrir Bandaríkjamenn eru gefin út. Þá eru Bandaríkjamenn í nauð á Íslandi veitt aðstoð eins og áður. Allt annað innan sendiráðsins skal skorið við nögl samkvæmt tilskipun frá Washington.
Talið er að lokun ríkisstofnana kosti bandaríska hagkerfið um 200 milljónir dollara á degi hverjum. Það þykja hinsvegar smámunir miðað við hvaða afleiðingar það hefur ef skuldaþakið verður ekki hækkað sem þýðir að Bandaríkin munu ekki geta greitt af lánum sínum.

