Erlent

Samkomulag um ályktun um Sýrland

Guðsteinn Bjarnason skrifar
Maður gengur í rústum íbúðarhúsa eftir loftárás í Homa.
Maður gengur í rústum íbúðarhúsa eftir loftárás í Homa. Mynd/AP
Svo virðist sem fastaríkin fimm, sem hafa neitunarvald í öryggisráði Sameinuðu þjóðana, hafi komið sér saman um orðalag ályktunar um eyðingu efnavopna í Sýrlandi.

AP-fréttastofan hefur þetta eftir embættismönnum hjá Sameinuðu þjóðunum. 

Bandaríkjamenn og Rússar hafa verið ósammála um orðalag ályktunarinnar, og snerist ágreiningurinn einkum um það með hvort beita megi valdi til að fylgja ályktuninni eftir, fari svo að Sýrlandsstjórn verði ekki við kröfum hennar um að eyða efnavopnum sínum.

fulltrúar þeirra hafa setið á fundum undanfarið ásamt fulltrúum Breta, Frakka og Kínverja til að ná sameiginlegri niðurstöðu.

Í gær sagði aðstoðarutanríkisráðherra Rússa að ein stærsta hindrunin hafi verið yfirstigin. Allir fulltrúarnir hafi fallist á að vísa í ályktuninni til 7. kafla stofnsáttmála Sameinuðu þjóðanna, þar sem heimildir eru til að grípa til aðgerða, með eða án hervalds, til þess að efla frið og öryggi.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×