Erlent

Telja Hammarskjöld hafa verið ráðinn bani

Haukur Viðar Alfreðsson skrifar
Hammarskjöld fórst með flugvél af gerðinni Douglas DC-6 ásamt fjórtán öðrum í Sambíu árið 1961.
Hammarskjöld fórst með flugvél af gerðinni Douglas DC-6 ásamt fjórtán öðrum í Sambíu árið 1961.
Rannsóknarnefnd skipuð fjölþjóðlegum hópi lögfræðinga telur að hefja eigi rannsókn á dauða Dag Hammarskjöld, fyrrum framkvæmdastjóra Sameinu þjóðanna, að nýju. Þetta kemur fram í nýrri skýrslu sem nefndin sendi frá sér í gær og í henni segir að haldbær sönnunargögn séu fyrir því að honum hafi verið ráðinn bani.

Hammarskjöld, sem var sænskur, fórst með flugvél af gerðinni Douglas DC-6 ásamt fjórtán öðrum í Sambíu árið 1961. Nefndin segir Þjóðaröryggisstofnun Bandaríkjanna hafa í vörslu sinni hljóðritanir úr stjórnklefa flugvélarinnar sem bendi til þess að flugvél Hammarskjöld hafi verið skotin niður, en hann var á leið til Austur-Kongó að stýra friðarviðræðum milli stríðandi fylkinga í landinu.

Í skýrslunni er meðal annars greint frá játningu belgísks flugmanns sem segist hafa skotið á vélina og samkvæmt vitnisburði fólks á jörðu niðri sáust leiftrandi ljós á himni og tvær flugvélar í loftinu rétt áður en vél Hammarskjölds brotlenti.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×