Innlent

Kemst ekki á öryggisfundi í vinnunni, fær ekki túlk

Hrund Þórsdóttir skrifar
Eins og greint var frá í fréttum Stöðvar 2 í gær eru fjármunir sem ætlaðir voru til túlkaþjónustu í daglegu lífi á þessu ári búnir og því útlit fyrir að heyrnarlausir fái ekki þessa nauðsynlegu þjónustu fyrr en á nýju ári.

Hilmar Thorarensen Pétursson er heyrnarlaus og starfar sem vélfræðingur. Hann þarf reglulega að sækja öryggisfundi á vinnustað sínum en fékk bréf þess efnis á föstudaginn fyrir rúmri viku, að sjóður sem greiðir fyrir túlka væri tómur og hann þyrfti að láta yfirmann sinn vita af því. „Svo var fundur hjá mér á mánudaginn var þar sem allir voru að spjalla og ræða um það sem þurfti að tala um og ég gat ekki tekið neinn þátt í því. Ég sat þarna á fundi án þess að vita hvað færi fram. Þannig að ef það kemur einhver hætta upp í vinnunni þá lendi ég í rosalega miklum vanda því ég veit ekki hver réttu viðbrögðin eru af því að ég hef ekki getað fylgst með á fundunum,“ segir Hilmar.

Skyldumæting er á fundina sem hafa mikla þýðingu fyrir starf Hilmars. „Þetta er ofsalega óþægilegt og yfirmaður minn lendir náttúrulega í vandræðum, hann á erfitt með að eiga samskipti við mig.“

Hilmar lenti líka í vandræðum þegar systir hans gifti sig, því hann fékk túlk í kirkjunni en ekki í veislunni og skyldi því ekkert sem fram fór. Hann segir nauðsynlegt að leysa málið sem fyrst.

Ninja Dögg Torfadóttir, eiginkona Hilmars, hefur fulla heyrn og segir stöðuna mjög óþægilega fyrir fjölskylduna. „Hann er í þessum heppna hópi þannig séð því hann á mig að og ég er heyrandi. Ég þarf að hringja allt fyrir  hann og gera allt sem túlkaþjónustan hefði annars séð um,“ segir Ninja.

Ástandið hefur í för með sér mikið álag á Ninju. „Hann þarf algjörlega að stóla á mig, að ég sé til taks og ef eitthvað kemur upp á, í vinnu eða annars staðar, þá þarf ég að hlaupa til þannig að þetta er mjög óþægileg staða fyrir okkur.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×