Erlent

SÞ: Júlí var blóðugasti mánuðurinn í Írak í fimm ár

Þorgils Jónsson skrifar
Mikið mannfall hefur orðið í Írak síðustu mánuði. 928 óbreyttir borgarar létust í árásum milli trúarhópa í júlímánuði, þar af 58 í röð sprenginga í Bagdad á mánudaginn, en þessi mynd var tekin þar á vettvangi.
Mikið mannfall hefur orðið í Írak síðustu mánuði. 928 óbreyttir borgarar létust í árásum milli trúarhópa í júlímánuði, þar af 58 í röð sprenginga í Bagdad á mánudaginn, en þessi mynd var tekin þar á vettvangi. Nordicphoto/AFP
Stjórnvöld í Írak þurfa að grípa tafarlaust til aðgerða til að stemma stigum við blóðbaðinu sem geisað hefur í landinu síðustu mánuði. Þetta segir í nýrri skýrslu Sameinuðu þjóðanna um ástand mála í Írak, en þar kemur meðal annars fram að 4.137 óbreyttir borgarar hafi látið lífið í árásum vígahópa í ár, þar af 928 í júlímánuði einum saman.

Það er mesta mannfall sem orðið hefur í einum mánuði í fimm ár, en auk þess hafa tæplega 10.000 særst í árásum í ár.

„Áhrif ofbeldisins á óbreytta borgara er sláandi,“ segir Gíorgí Busztin, fulltrúi SÞ í Írak.



„Leiðtogar landsins verða að grípa tafarlaust til aðgerða með ákveðnum hætti til að stöðva þetta tilgangslausa blóðbað,“ bætti hann við. Busztin segir að ef ekkert verði af gert muni ástandið þróast út í það sem var í óöldinni sem ríkti árin 2006 til 2007. Þá bárust helstu trúarhópar landsins, sjítar og súnnítar, á banaspjótum þar sem þúsundir manna létust.



Í flestum tilfellum er um að ræða árásir súnníta á sjíta. Í hópi súnníta eru meðal annars liðsmenn al-Kaída í Írak, en tilgangur þeirra með árásunum er talinn vera að æsa trúbræður sína til aðgerða gegn sjítum, sem eru fjölmennastir í Írak og ráða mestu í stjórn landins.

Saddam Hússein var súnníti og á stjórnarárum hans var sjítum kerfisbundið haldið niðri, en eftir stjórnarskiptin sem fylgdu innrás Bandaríkjamanna urðu alger umskipti sem falla súnnítum ekki í geð.

Höfuðborgin Bagdad hefur orðið verst úti í ofbeldisöldunni þar sem 238 óbreyttir borgarar létust og 719 særðust í síðasta mánuði.

Múslimar trúa allir á einn og hinn sama guð, Allah, og spámanninn Múhameð. Þeir skiptast þó í tvær meginfylkingar, súnníta og sjíta. Sá klofningur varð þegar Múhameð lést árið 632 en deilan snýst að mestu um það hver skyldi vera eftirmaður spámannsins. Súnnítar héldu því fram að Abu Bekr, tengdafaðir Múhameðs, skyldi verða andlegur, og að nokkru veraldlegur, leiðtogi, en þeir sem héldu fram Ali, tengdasyni Múhameðs, nefndust sjítar. Þá hafa hóparnir misjafna sýn á hin svokölluðu hadith sem eru ummæli sem höfð eru eftir Múhameð, en er ekki að finna í Kóraninum, en súnnítar eru fastheldnari á fylgni við helgiritið. Súnnítar eru fjölmennari á heimsvísu þar sem þeir telja á milli 80 og 90% allra múslima, Sjítar eru þó fjölmennari í einstökum löndum, meðal annars Íran og Írak. (Heimildir: Vísindavefurinn og Wikipedia)



Fleiri fréttir

Sjá meira


×