Enski boltinn

Gylfa og félögum slátrað

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Gylfi Þór Sigurðsson lék allan leikinn með Tottenham sem steinlá 5-2 í æfingaleik gegn AS Monaco en leikið var í smáríkinu í kvöld.

Heimamenn voru miklu sprækari aðilinn í leiknum og komust yfir eftir fjórtán mínútur með fallegu skoti Raggi úr þröngu færi. Spurs stillti upp vængbrotnu liði með Zeki Fryers og Jake Livermore í miðvörðum. Þeir áttu í miklu basli í leiknum líkt og aðrir liðsmenn Lundúnaliðsins.

Monaco gerði út um leikinn í upphafi síðari hálfleiks. Fyrst skoraði Ocampos með skalla eftir aukaspyrnu Moutino og Radamel Falcao bætti við þriðja markinu á 48. mínútu eftir undirbúning Ocampos.

Harry Kane, sem kom inn á sem varamaður fyrir Jermain Defoe snemma leiks, minnkaði muninn skömmu síðar eftir undirbúning Dembele. Aftur bættu heimamenn við mörkum á 64. mínútu þegar Falcao skoraði með skoti úr teignum. Fimmta markið skoraði Obbadi eftir skyndisókn.

Andros Townsend minnkaði muninn með laglegu langskoti seint í leiknum.

Mörkin úr leiknum má sjá í spilaranum að ofan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×