Erlent

Obama hættir við að hitta Pútín

Guðsteinn Bjarnason skrifar
Þeir Obama og Pútín hafa hist nokkrum sinnum áður.
Þeir Obama og Pútín hafa hist nokkrum sinnum áður. Mynd/AP
Barack Obama Bandaríkjaforseti hefur aflýst fyrirhuguðum leiðtogafundi með Vladimír Pútín Rússlandsforseta, sem halda átti í Moskvu í næsta mánuði.

Þetta eru viðbrögð Obama við ákvörðun Rússa um að veita uppljóstraranum Edward Snowden tímabundið dvalarleyfi í Rússlandi.

Einnig er talið að bandarískum stjórnvöldum gremjist fleiri þættir í stefnu Rússa, og má þar nefna andstöðu Rússa við flugskeytavarnir, sem Bandaríkjamenn hugðust setja upp í ríkjum austanverðrar Evrópu. Einnig hefur afstaða Rússa í mannréttindamálum og andstaða Rússa við inngríp í borgarastríðið í Sýrlandi aukið á spennuna í samskiptum ríkjanna.

Obama hyggst engu að síður mæta á leiðtogafund G20-ríkjanna, sem haldinn verður í St. Pétursborg, en í staðinn fyrir að fara til Moskvu ætlar Obama að koma við í Svíþjóð snemma í september.

Rússar segja þessa ákvörðun Bandaríkjaforseta viss vonbrigði, en heimboðið til Moskvu standi enn, kjósi Obama að nýta sér það.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×