Fótbolti

Njósnað um Blika

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Ólafur Kristjánsson.
Ólafur Kristjánsson. Mynd/Ernir

„Maður er með sín prinsipp og stendur ekki í svona skítabusiness," segir Ólafur Kristjánsson þjálfari karlaliðs Breiðabliks í knattspyrnu.

Blikar taka á móti Aktobe frá Kasakstan í síðari viðureign liðanna í 3. umferð forkeppni Evrópudeildarinnar á Laugardalsvelli annað kvöld. Gestirnir æfa í kvöld á Laugardalsvelli og lék blaðamanni forvitni á að vita hvort Ólafur ætlaði að senda njósnara á staðinn. Svarið var skýrt.

„Nei, ég geri það ekki," sagði Ólafur. „Ef æfingar eiga að vera lokaðar þá virðir maður það."

Blikar hafa spilað ytra í Andorra, Austurríki og Kasakstan í forkeppni Evrópudeildarinnar í sumar.

„Æfingar okkar í Sturm Graz og Aktobe áttu að vera lokaðar. Í Austurríki sátu þjálfarinn og aðstoðarþjálfarinn inni í VIP-herberginu, drukku kaffi og þóttust vera veitingastarfsmenn," segir Ólafur.

Þjálfari Blika segir að aðstoðarmaður sinn, Úlfar Hinriksson, hafi farið upp í stúku á meðan á æfingu Blika stóð og litið inn í VIP-herbergið. Þar hafi fjórir veitingastarfsmenn tekið á móti honum.

„Daginn eftir, rétt fyrir leik, segir hann við mig að einn veitingarstarfsmannanna sé á varamannbekk Austurríkismannanna," segir Ólafur sem spurði Úlfar hvern hann ætti við. Kom upp úr krafsinu að viðkomandi veitingastarfsmaður var aðstoðarþjálfari Sturm.

„Hann er greinilega ekki í fullu starfi sem aðstoðarþjálfari því hann sagðist vera veitingastarfsmaður í gær," hefur Ólafur eftir Úlfari aðstoðarmanni sínum.

Svipað hafi verið uppi á teningnum þegar Blikar mættu til Kasakstan.

„Þá sátu tuttugu manns og horfðu á æfingu Blika og sögðust allir vera starfsmenn í öryggisgæslu," segir Ólafur.

Leikur Blika og Aktobe hefst á Laugardalsvelli annað kvöld klukkan 20.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.