Fótbolti

Njósnað um Blika

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Ólafur Kristjánsson.
Ólafur Kristjánsson. Mynd/Ernir
„Maður er með sín prinsipp og stendur ekki í svona skítabusiness," segir Ólafur Kristjánsson þjálfari karlaliðs Breiðabliks í knattspyrnu.

Blikar taka á móti Aktobe frá Kasakstan í síðari viðureign liðanna í 3. umferð forkeppni Evrópudeildarinnar á Laugardalsvelli annað kvöld. Gestirnir æfa í kvöld á Laugardalsvelli og lék blaðamanni forvitni á að vita hvort Ólafur ætlaði að senda njósnara á staðinn. Svarið var skýrt.

„Nei, ég geri það ekki," sagði Ólafur. „Ef æfingar eiga að vera lokaðar þá virðir maður það."

Blikar hafa spilað ytra í Andorra, Austurríki og Kasakstan í forkeppni Evrópudeildarinnar í sumar.

„Æfingar okkar í Sturm Graz og Aktobe áttu að vera lokaðar. Í Austurríki sátu þjálfarinn og aðstoðarþjálfarinn inni í VIP-herberginu, drukku kaffi og þóttust vera veitingastarfsmenn," segir Ólafur.

Þjálfari Blika segir að aðstoðarmaður sinn, Úlfar Hinriksson, hafi farið upp í stúku á meðan á æfingu Blika stóð og litið inn í VIP-herbergið. Þar hafi fjórir veitingastarfsmenn tekið á móti honum.

„Daginn eftir, rétt fyrir leik, segir hann við mig að einn veitingarstarfsmannanna sé á varamannbekk Austurríkismannanna," segir Ólafur sem spurði Úlfar hvern hann ætti við. Kom upp úr krafsinu að viðkomandi veitingastarfsmaður var aðstoðarþjálfari Sturm.

„Hann er greinilega ekki í fullu starfi sem aðstoðarþjálfari því hann sagðist vera veitingastarfsmaður í gær," hefur Ólafur eftir Úlfari aðstoðarmanni sínum.

Svipað hafi verið uppi á teningnum þegar Blikar mættu til Kasakstan.

„Þá sátu tuttugu manns og horfðu á æfingu Blika og sögðust allir vera starfsmenn í öryggisgæslu," segir Ólafur.

Leikur Blika og Aktobe hefst á Laugardalsvelli annað kvöld klukkan 20.
Fleiri fréttir

Sjá meira


×