Elfar Árni Aðalsteinsson verður í leikbanni þegar Breiðablik sækir Aktobe heim í Kasakstan í fyrri viðureign liðanna í 3. umferð forkeppni Evrópudeildar á fimmtudag.
Elfar Árni fékk tvö gul spjöld í sigurleik Blika í Graz síðastliðinn fimmtudag. Fyrra spjaldið hefði hann hins vegar aldrei átt að fá enda ekki sá brotlegi í atvikinu sem dómarinn mat að spjalda ætti fyrir.
Atli Sigurðarson, framkvæmdastjóri knattspyrnudeildar Breiðablik, staðfesti í samtali við Vísi í morgunsárið að Blikar hefðu kært fyrra gula spjaldið til Knattspyrnusambands Evrópu.
„Niðurstaðan var sú að spjaldið skyldi standa," segir Atli við Vísi. Elfar Árni verður því fjarri góðu gamni í ferðalaginu til Kasakstan en þess klárari í slaginn í síðari leiknum annan fimmtudag.
