Erlent

Bretar bíða barnsfæðingar

Guðsteinn Bjarnason skrifar
Almenningur bíður tíðinda við Buckingham-höll.
Almenningur bíður tíðinda við Buckingham-höll. Nordicphotos/AFP
Mikill mannfjöldi hefur safnast saman við Buckinghamhöll í London þar sem tilkynnt verður þegar nýr ríkisarfi er fæddur.

Katrín prinsessa, eiginkona Vilhjálms ríkisarfa, lagðist inn á fæðingardeild sjúkrahúss í London snemma í morgun en síðan þá hafa engar fréttir borist, aðrar en af biðinni.

Hlutirnir hafa sinn gang,” sagði talsmaður hjónanna.

Þetta verður fyrsta barn þeirra Vilhjálms og Katrínar. Hvort sem barnið verður drengur eða stúlka verður það arftaki bresku krúnunnar, næst á eftir föður sínum Vilhjálmi, sem tekur við af Karli föður sínum, sem nú er orðinn 64 ára og á að taka við af móður sinni, Elísabetu drottningu, þegar þar að kemur.

Opinberlega verður tilkynnt um fæðinguna í fullu samræmi við gamlar hefðir. Læknir mun undirrita formlega tilkynningu, sem sendiboði konungsfjölskyldunnar fer með til Buckinghamhallar og festir þar upp á aðalhliðið, þar sem allir geta lesið.

Ekki er þó öllum hefðum fylgt lengur. Þannig verða hvorki utanríkisráðherra Bretlands né biskupinn af Kantaraborg voru viðstaddir fæðinguna, en áður var venja að þeir, sem gegndu þessum stöðum, fylgdust með viðburði af þessu tagi.

Önnur nýbreytni er sú að Vilhjálmur prins, faðir barnsins, fær tveggja vikna fæðingarorlof frá herþjónustu.

Fjölmiðlar bíða við sjúkrahúsiðMynd/AP



Fleiri fréttir

Sjá meira


×