Erlent

Tveggja daga gömlu barni bjargað úr skólpröri

Hrund Þórsdóttir skrifar

Tveggja daga gömlu barni var um helgina bjargað úr skólpröri í fjölbýlishúsi í Kína. Kínverskir fjölmiðlar greindu frá þessu í gær.

Hin ótrúlega björgun átti sér stað eftir að íbúar urðu varir við barnsgrát og við nánari skoðun sást glitta í agnarsmáan fót í skólpröri rétt fyrir neðan klósettið. Flestir telja að barninu hafi verið sturtað niður en einhverjir halda því fram að móðir barnsins hafi leynt því að hún væri ólétt og fætt barnið óvænt þegar hún var á klósettinu.

Ekki reyndist unnt að bjarga barninu á staðnum, svo björgunarfólk losaði rörið, sem er um tíu sentímetrar í þvermál, og fór með það ásamt barninu á nærliggjandi sjúkrahús. Það tók björgunarfólk og lækna um klukkustund að leysa barnið úr prísundinni og reyndist það vera drengur. Hann var enn með naflastrenginn fastan við fylgjuna.

Drengurinn var með skrámur í andliti og víðar og hægst hafði á hjartslætti hans, en var hann settur í öndunarvél og er ástand hans nú stöðugt. Margir hafa fært drengnum gjafir á spítalann en engir aðstandendur hafa gefið sig fram. Lögreglan leitar að foreldrum drengsins og eiga þeir yfir höfði sér ákæru um manndrápstilraun.

Ekki er óalgengt að börn séu yfirgefin í Kína en þar er hægt að sekta foreldra sem eignast fleiri en eitt barn.
Fleiri fréttir

Sjá meira


×