Innlent

Árlega gerðar nokkrar aðgerðir eins og Jolie fór í

Lillý Valgerður Pétursdóttir skrifar
Angelina Jolie og Brad Pitt.
Angelina Jolie og Brad Pitt.
Bandaríska leikkonan Angelina Jolie lét fjarlægja brjóst sín af ótta við að fá brjóstakrabbamein. Nokkrar slíkar aðgerðir eru gerðar hér á landi á hverju ári.

Leikkonan þekkta ritaði grein sem birtist í bandaríska blaðinu The New York Times í dag þar sem hún greinir frá þessu. Móðir hennar lést eftir baráttu við brjóstakrabbamein en Angelina Jolie er líkt og móðir sín arfberi gensins BRCA1. Hún segir lækna sína hafa talið 87% líkur á að hún fengi brjóstakrabbamein líkt og móðir sín. Hún hafi því farið þá leið að fjarlægja brjóst sín sem fyrirbyggjandi aðgerð en með henni fari líkurnar á krabbameininu niður í 5%.

Á Landspítalanum er í boði sérstök erfðaráðgjöf þar hægt er að kanna hvort að fólk sé í aukinni áhættu á að fá krabbamein. Vigdís Stefánsdóttir er erfðaráðgjafi á spítalanum.

„Við hittum þá konur og karla reyndar sem hafa áhyggjur sem að hafa áhyggjur af því að vera arfberar fyrir þá stökkbreytingar sem að geta aukið líkur á krabbameinum. Þar á meðal BRCA1 sem talað er um í greininni og svo BRCA2 sem er reyndar mun algengara hér á Íslandi heldur en BRCA1 og þetta BRC stendur bara fyrir Breast Cancer Gene 1 og 2 eða brjóstakrabbameinsgen 1 og 2 og stökkbreytingar í báðum þessum genum valda aukinni áhættu á meðal annars á brjóstakrabbameini, eggjastokkakrabbameini og svo geta karlar fengið þá blöðruhálskrabbamein og jafnvel brjóstakrabbamein líka," segir Vigdís.

Þeir sem eru arfberar fyrir stökkbreytingu í öðru hvoru geninu geta svo hitt skurðlækna þar sem farið er í gegnum það hvort að fyrirbyggjandi skurðaðgerð sé mögulega leið sem fólk vill nýta sér. Þórdís Kjartansdóttir skurðlæknir sagði í samtali við fréttastofu að það hafi færst í vöxt að konur fari í fyrirbyggjandi aðgerðir af ótta við að fá brjóstakrabbamein. Nokkrar konur fari í slíkar aðgerðir á hverju ári og telur hún að þær séu að meðaltali fimm.

Vigdís segir fyrirbyggjandi aðgerð geta haft mikil áhrif á líkurnar á því að fá brjóstakrabbamein. „Í sumum fjölskyldum eru mjög erfið krabbamein og konur eru að fá krabbamein frekar ungar og fyrir þeim er þetta náttúrulega, detta líkurnar úr því að vera einhvers staðar á milli 40 og 70-80% í það að vera mjög litlar. Það eru líka dæmi um það að konur fari í fyrirbyggjandi aðgerðir með það að láta taka eggjastokkana því að það dregur líka úr krabbameinsáhættu í brjóstum," sagði Vigdís Stefánsdóttir.


Tengdar fréttir

Brad Pitt lítur á Angelinu sem hetju

"Þetta er mikill gleðidagur fyrir fjölskylduna. Það eina sem ég vil er að hún lifi löngu og heilbrigðu lífi með mér og börnunum okkar.“

Angelina lætur fjarlægja bæði brjóst sín

Leikkonan Angelina Jolie tilkynnti í morgun að ótti hennar við krabbamein hafi leitt hana til þeirrar niðurstöðu að rétt væri að láta fjarlægja bæði brjóst sín.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×