Dauðþreyttum leikmönnum Tottenham reyndist fyrirmunað að koma boltanum framhjá Yann Sommer í vítaspyrnukeppninni gegn Basel í Evrópudeildinni í kvöld.
Á flestu er þó undantekning og í kvöld var sú undantekning Gylfi Þór Sigurðsson. Eftir að Sommer hafði varið spyrnu Tom Huddlestone og Basel skorað úr tveimur fyrstu spyrnum sínum var komið að Hafnfirðingnum.
Gylfi, sem hefur margsannað öryggi sitt á punktinum, sendi boltann þéttingsfast ofarlega í mitt markið. Líkast til var enginn sem þekkir til Gylfa sem hafði áhyggjur af því að hann myndi ekki skora úr spyrnu sinni.
Eftir á að hyggja er í raun og veru óskiljanlegt að Gylfi hafi ekki verið fyrsti maður á punktinn. Spyrnugeta hans er óumdeild og í ljósi fjarveru helstu vítaskyttna liðsins hefði verið gott fyrir Spurs ef Gylfi hefði gefið tóninn.
Svo fór ekki og Tottenham getur farið að einbeita sér að baráttunni um sæti í Meistaradeild Evrópu á næstu leiktíð.
Sportið á Vísi er komið á Facebook. Vertu með.

