Erlent

Almenn ánægja með nýja páfann - fyrsti jesúítinn í embættinu

Almenn ánægja ríkir meðal leiðtoga heimsins með kjörið á hinum nýja páfa, argentínska kardinálanum Jorge Mario Bergoglio eða Frans 1. eins og hann hefur kallað sig.

Christina Kirchner forseti Argentínu var meðal þeirra fyrstu sem sendu hinum nýja páfa heillaóskir. Mikil gleði ríkti meðal almennings í Argentínu í gærkvöldi með að landi þeirra skyldi verða valinn páfi.

Heillaóskir hafa einnig komið frá Barack Obama Bandaríkjaforseta, helstu leiðtogum Evrópusambandsins og Ban Ki-moon framkvæmastjóra Sameinuðu þjóðanna.

Kjör Frans 1. þykir sæta nokkrum tíðindum. Þetta er fyrsti páfinn sem kemur frá landi utan Evrópu í ein 1.200 ár og þetta er fyrsti jesúítinn sem kjörinn er páfi. Nafn sitt dregur hinn nýi páfi frá heilögum Frans af Assisi.

Eini bletturinn sem finna má á ferli páfans hingað til er að hann mótmælti aldrei hroðaverkum herforingjastjórnarinnar í Argentínu á sínum tíma. Hann er einnig verulega andsnúinn samkynhneigð.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×