Erlent

Fyrsta sýni úr berginu á Mars

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Sýnið sem Curiosity tók í gær.
Sýnið sem Curiosity tók í gær. Mynd/Nasa
Curiosity, könnunarjeppi bandarísku geimvísindastofnunarinnar NASA, hefur náð í fyrsta sýnið úr bergi á plánetunni Mars. Bandarískir fjölmiðlar greina frá þessu.

Bor á armi Curiosity náði í sýnið úr duftinu með því að bora rúma sex sentimetra inn í bergið. Um er að ræða sögulega stund því aldrei áður hefur náðst bergsýni af annarri plánetu en jörðinni.

„Mörg okkar hafa unnið að þessu í mörg ár. Það er afar ánægjulegt að fá staðfestingu á því að borunin hafi tekist. Fyrir okkur er þetta jafnstór stund og lendingin í augum lendingarsérfræðinga," segir Scott McCloskey á heimasíðu NASA.

Marsjeppinn hefur verið á plánetunni frá 6. ágúst 2012 og á að uppfylla mörg metnaðarfull vísindaleg markmið. Þau snúa öll að því að komast að því hvort aðstæður á Mars hafi einhvern tímann eða séu jafnvel enn í dag heppilegar fyrir örverulíf.

Nánari upplýsingar um Marsjeppann má fá á heimasíðu Stjörnufræðifélagsins.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×