Erlent

Yfir þrjátíu létust í sprengingu

Haukur Viðar Alfreðsson skrifar
Björgunarmenn bera slasaðan mann af vettvangi.
Björgunarmenn bera slasaðan mann af vettvangi. Mynd/AFP
Að minnsta kosti 31 lést í bílasprengingu í dag nálægt höfuðstöðvum Baath-flokksins í Damaskus, Sýrlandi.

Að sögn mannréttindasamtaka á svæðinu eru flestir hinna látnu óbreyttir borgarar, þar af börn í nálægum grunnskóla, en meðlimir öryggissveita létust einnig.

Bifreiðin sprakk við öryggishlið milli rússneska sendiráðsins í Damaskus og höfuðstöðva forseta Sýrlands, Bashar al Assad, og er brak sagt hafa dreifst yfir stórt svæði. Rúður sendiráðsins sprungu allar sem ein en starfsfólk þess særðist ekki.

Enginn hefur lýst ódæðinu á hendur sér en fjölmiðlar í Sýrlandi segja að um hryðjuverk andstæðinga Assads sé að ræða.

Damaskus hefur þótt með öruggari borgum Sýrlands, en uppgangur uppreisnarmanna hefur verið mikill þar að undanförnu með vaxandi öldu ofbeldis.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×