Erlent

Býr dómsdagur í hjarta Guðseindarinnar?

Kjartan Hreinn Njálsson skrifar
Hugmyndir um dómsdag, eða endalok hinnar jarðlegu tilvistar mannkyns, eru í hugum margra nátengdar stórkostlegum náttúruhamförum.
Hugmyndir um dómsdag, eða endalok hinnar jarðlegu tilvistar mannkyns, eru í hugum margra nátengdar stórkostlegum náttúruhamförum.
Bandarískur eðlisfræðingur telur líklegt að eiginleikar Higgs-bóseindarinnar feli í sér útrýmingu alheimsins eftir milljarða ára. Hliðarveruleiki mun á endanum yfirgnæfa veruleika okkar.

Hugmyndir um dómsdag, eða endalok hinnar jarðlegu tilvistar mannkyns, eru í hugum margra nátengdar stórkostlegum náttúruhamförum. Loftsteinninn sem grandar öllu lífi á jörðinni er gott dæmi um þetta. Þegar slíkar hugmyndir eru reifaðar er það að jafnaði tæknileg vanþekking mannkyns sem hindrar eða kemur í veg fyrir áframhaldandi tilvist þess. En þar með er ekki öll sagan sögð.



Svo virðist sem að umræddur dómsdagur verði með öðrum hætti en almenningur, fræðimenn og rithöfundar hafa ímyndað sér hingað til. Þetta örlagaríka augnablik á rætur að rekja til Higgs-bóseindarinnar, eða hinnar svokölluðu Guðseindar.




Á síðasta ári tilkynntu eðlisfræðingar og vísindamenn við Stofnun Evrópu að kjarnorkurannsóknum, CERN, að yfirgnæfandi líkur væru á að Higgs-bóseindin hefði myndast í árekstrum einda í Stóra stóra sterkeindahraðlinum, LHC, á landamærum Frakklands og Sviss.


Á þessari mynd má sjá þegar agnarsmáar eindir skella saman, sameinast og mynda aðrar eindir. Þar á meðal hina risavöxnu Higgs-bóseind.MYND/CERN
Higgs-bóseindin gegnir lykilhlutverki í Staðallíkani nútíma eðlisfræði en þar er öreindum og kröftum þeirra lýst. Í stuttu máli er Higgs-bóseindin sú ögn sem myndar Higgs-sviðið en það ljær ögnum alheimsins massa. Sama kenning gerir ráð fyrir að hægt sé að dreifa massa milli öreinda, smæstu ódeilanlegum eindum náttúrunnar.



Eðlisfræðingar víða um heim hafa á síðustu mánuðum rýnt í niðurstöður vísindamannanna hjá CERN. Einn af þeim er Joseph Lykken, eðlisfræðingur hjá Fermilab-vísindastofnuninni í Bandaríkjununm.




Í rannsóknum sínum, sem beindust að massa Higgs-bóseindarinnar, kom Lykken auga á magnþrungna staðreynd: Vegna hins sífellda flæði massa er alheimurinn í hálfstöðugu ástandi.



"Ef sú eðlisfræði sem við styðjumst við í dag er rétt, þá eru þetta sannarlega slæmar fréttir," segir Lykken en hann sat fyrir svörum hjá bandarísku fréttastofunni NBC fyrr í vikunni. "Alheimurinn sækist eftir því að leiðrétta þetta óstöðuga ástand."



Að mati Lykkens er ljóst að endanleg leiðrétting náttúrunnar á færslu massa mun á endanum útrýma alheiminum eins og við þekkjum hann.



"Á einhverjum tímapunkti í framtíðinni mun lítil bóla myndast djúpt í alheiminum. Það sem við sjáum þar er í raun hliðar-veruleiki, nýr alheimur sem stækkar ört og yfirtekur heim okkar," segir Lykken. Hann bendir þó á að margt eigi eftir að rannsaka í þessum efnum.



En ef dómsdagur verður í anda Lykkens þá munum við vart taka eftir honum. Fyrir það fyrsta þá mun þessi atburður ekki eiga sér stað fyrr en eftir milljarða ára og í þokkabót mun hliðar-veruleikinn hertaka okkar alheim á ljóshraða. Maðurinn mun því ekki taka eftir neinu og nær útilokað verður fyrir hann að sporna við slíkum hörmungum, sama hver tækniþekking hans er.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×