Erlent

Dauði barns magnar upp milliríkjadeilu

Haukur Viðar Alfreðsson skrifar
Michael McFaul, sendiherra Bandaríkjanna í Rússlandi. Á innfelldu myndinni er hinn þriggja ára Max Shatto, sem lést þann 21. janúar.
Michael McFaul, sendiherra Bandaríkjanna í Rússlandi. Á innfelldu myndinni er hinn þriggja ára Max Shatto, sem lést þann 21. janúar. Samsett mynd/AFP
Michael McFaul, sendiherra Bandaríkjanna í Rússlandi, gagnrýnir rússnesk yfirvöld fyrir að nýta sér harmleik í pólitískum tilgangi. Fréttastofa BBC greinir frá.

Þetta skrifar sendiherrann á bloggsíðu sína, og vísar til dauða hins þriggja ára Max Shatto þann 21. janúar, en hann var ættleiddur til Bandaríkjanna frá Rússlandi og saka rússnesk yfirvöld kjörmóðurina um að hafa myrt hann.

Þann 1. janúar tók í gildi bann við ættleiðingum á rússneskum börnum til Bandaríkjanna, en Vladimir Putin forseti Rússlands undirritaði lög þess efnis til að hefna fyrir Magnitsky-lögin svokölluðu. Þau lög undirritaði forseti Bandaríkjanna, Barack Obama, og meina þau rússneskum ráðamönnum sem taldir eru hafa verið viðriðnir dauða lögfræðingsins Sergei Magnitsky aðgangur að Bandaríkjunum til lífstíðar.

Segir sendiherrann rússnesk yfirvöld hafa notað dauða drengsins til að réttlæta bannið frekar, þó enn sé óvíst hvernig dauða hans bar að garði. Þá hafi umboðsmaður barna í Rússlandi lýst því yfir á Twitter í vikunni að kjörmóðir drengsins hafi myrt hann.

McFaul bætti því við að honum þætti það dapurlegt að tuttugu börn sem hafa verið ættleidd frá Rússlandi til Bandaríkjanna hafi dáið, en um leið væri hann stoltur af því að 60 þúsund önnur börn hafi farið til ástríkra fjölskylda í Bandaríkjunum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×