Erlent

Danskir menntaskólanemar á lífshættulegu hóteli í Austurríki

Um 200 danskir menntaskólanemar dvelja nú við aðstæður sem taldar eru lífshættulegar á hóteli í bænum Bad Gastein í Austurríki.

Þessir nemendur eru í vetrarfríi og koma frá Fredericia og Viborg. Þeir höfðu keypt ferðina til Austurríkis hjá ferðaskrifstofunni Northlander.

Í viðtali við TV2 í Danmörku segir einn nemendanna að hótelið sem þau dvelja á og heitir Hotel4Young líkist helst hálfkláraðri byggingu. Þau komu að kvöldi til eftir rútuferð frá Danmörku. Engin lýsing hafi verið í móttökunni og heldur enginn starfsmaður til að taka á móti þeim.

Þegar nemendurnir komust loks á herbergi sín kom í ljós að bæði klósett og bað vantaði á hluta þeirra. Það þýðir að 12 nemendur sameinast um hvert klósett og bað. Í öllum herbergjum hengju rafvírar út úr veggjum, engin handföng eða lásar voru á dyrum herbergjanna og hvergi var reykskynjara að finna. Ferðin var keypt með hálfu fæði en ekkert eldhús er til staðar á hótelinu.

Slökkviliðsmaður sem sá myndir af herbergjunum segir í samtali við TV2 að danska eldvarnareftirlitið myndi loka þessu hóteli í hvínandi hvelli enda væri það lífshættuleg brunagildra fyrir gestina.

TV2 hefur ekki náð tali af forstjóra Northlander þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×