Erlent

Telur líklegast að finna líf á Evrópu

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Júpíter ásamt tveimur af tunglum þess. Evrópu til vinstri og Íó.
Júpíter ásamt tveimur af tunglum þess. Evrópu til vinstri og Íó. Nordicphotos/Getty
Bandarískir stjörnufræðingar í leit að lífi í sólkerfinu telja Evrópu, eitt af tunglum Júpíters, betri kost en plánetuna Mars.

Bandarísk stjórnvöld beina sjónum sínum einkum að Mars í augnablikinu en plánetan er eyðimörk að mestu leyti. Evrópa hefur hins vegar heimshaf sem stjörnufræðingarnir telja skipta sköpum Auk þess er ísskorpa tunglsins í þynnra lagi.

„Evrópa er líklegasti staðurinn í sólkerfinu fyrir utan jörðina til að finna ... líf," segir stjörnufræðingurinn Robert Pappalardo hjá starfstöð NASA í Pasadena í Kaliforníu.

Unnið hefur verið að áætlun um að kanna Evrópu en dregið hefur úr fjármagni sem setja átti í verkið að ósk NASA. Í burðarliðnum er að senda vitjeppa, svipaðan Curiosity, til Mars en kostnaður er talinn munu nema rúmum 300 milljörðum króna.

NASA hefur þó möguleika á að taka þátt í verkefni er varðar Júpíter í gegnum ESA, Geimvísindastofnun Evrópu. Vegalengdin til Júpíter er mun lengri en til Mars. Í verkefni ESA er áætlað að geimflaug myndi komast á áfangastað í kringum árið 2030.

Pappalardo segir nauðsynlegt að NASA horfi ekki framhjá plánetum á borð við Júpíter, og tungl þess Evrópu. Hann telur að þótt líf hafi kannski verið á Mars fyrir milljörðum ára gæti verið líf að finna á Evrópu í dag.

Evrópa er minnsta tungl Júpíters. Það er örlítið minna að stærð en tungl jarðarinnar.

Nánar um málið hér.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×