Erlent

Mesta morðtíðnin í Evrópu er á Korsíku

Franska eyjan Korsíka í Miðjarðarhafinu hefur fengið það slæma orð á sig að vera það svæði í Evrópu þar sem tíðni morða er hæst.

Korsíka er einkum þekkt sem ferðamannaparís og þar liggur hluti af skýringunni á mikilli morðtíðni. Glæpamenn, bæði innfæddir og aðfluttir hafa keypt jarðir á eyjunni í miklum mæli undir sumarhús eða til að braska með.

Undanfarin áratug hafa verið framin að jafnaði 20 til 25 launmorð á hverju ári, við þá tölu bætast síðan önnur morð eins og vegna heimilisofbeldis. Frá árinu 2007 hafa verið framin 105 launmorð á Korsíku en í aðeins 10% tilvika hefur einhver hlotið dóm fyrir þau.

Íbúafjöldi eyjarinnar er næstum á pari við Ísland en Korsíkubúar eru rétt rúmlega 300.000 talsins. Morðtíðnin þar samsvarar því að yfir 25 morð væru framin á hverju ári á Íslandi.

Flestir þeirra sem myrtir eru af launmorðingjum hafa verið glæpamenn eða fólk sem tengist þeim. Í frétt um málið á vefsíðu BBC segir að morðin eigi sér oft stað á opinberum stöðum og í augsýn ferðamanna á eyjunni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×