Erlent

Beðið eftir Obama

Mikill mannfjöldi er samankominn í þjóðgarðinum The Mall í Washington DC, höfuðborg Bandaríkjanna. Barack Obama mun sverja embættiseið sinn opinberlega síðdegis í dag.

Obama sór raunar embættiseiðinn í gær en hefð er fyrir því að athöfnin fari fram þann 20. janúar. Athöfnin fór fram í Hvíta húsinu en athöfn dagsins í dag fer fram á pöllum þinghússins. Þriðji mánudagur í janúar er almennur frídagur í Bandaríkjunum til heiðurs Dr. Martin Luther King, baráttumanni fyrir borgaralegum réttindum blökkumanna.

Michelle Obama mætir á svæðið ásamt dætrum þeirra hjóna sem heita Sasha og Malia.Nordicphotos/AFP
Fólk byrjaði að safnast saman fyrir allar aldir í morgun til þess að ná sér í sem best stæði og útsýni fyrir athöfnina. Obama-fjölskyldan fór í messu í St. John's kirkju áður en hún hélt til athafnarinnar við Þinghúsið.

Talið er að 1,8 milljón manna hafi komið saman á sama stað fyrir fjórum árum þegar Obama var kjörinn forseti í fyrsta skipti. Um sögulegan viðburð var að ræða þar sem Obama varð fyrsti blökkumaðurinn til þess að gegna embætti forseta vestanhafs. Öllu færri eru mættir í dag en talið er að um hálf milljón manna verði vitni að athöfninni.

Athöfnin árið 2009 gekk ekki snurðulaust fyrir sig eins og sjá má á þessari upptöku. Engum varð þó meint af en Obama kaus að sverja eiðinn öðru sinni í Hvíta húsinu daginn eftir til vonar og vara.

Bill og Hillary Clinton eru að sjálfsögðu á svæðinu.Nordicphotos/AFP
Gríðarlega ströng öryggisgæsla er á svæðinu, sérstaklega í námunda við þinghúsið. Hátíðardagskrá mun standa fram eftir kvöldi. Meðal þeirra sem fram koma á henni eru Beyonce, James Taylor, Stevie Wonder og Kelly Clarkson.

Obama mætir á svæðið ásamt dætrum sínum.Nordicphotos/AFP
Vísir



Fleiri fréttir

Sjá meira


×