Erlent

Töluverðar líkur á hafísvetri í Danmörku

Töluverðar líkur eru á því í ár að Danir muni upplifa sinn fyrsta hafísvetur á undanförnum 17 árum.

Vetrarhörkur hafa hrjáð Dani undanfarna daga eins og raunar flestar þjóðir í norðanverðum og miðhluta Evrópu. Frostið hefur verið það mikið í Danmörku að hafís er byrjaður að myndast undan ströndum landsins.

Það þarf hinsvegar meira til en ísskán á hafi úti til að Danir tali um það sem hafísvetur. Skilyrði til þess er að ísbrjótar á vegum hins opinbera þurfi að halda helstu ferjuleiðum við strendurnar opnum. Hingað til hefur ekki komið til slíks en bent hefur verið á að ferjurnar sem smíðaðar hafa verið á seinni árum eru hannaðar þannig að þær geta vel siglt í gegnum þunnan hafís.

Í frétt um málið í Ekstra Bladet er haft eftir veðurfræðingnum Thomas Alsbrik að ef núverandi vetrarhörkur haldist, fyrir utan skammtíma hlýnun sem spáð er um næstu helgi, muni möguleikinn á hafísvetri við Danmörku vissulega til staðar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×