Erlent

Mest eftirprentaða málverk sögunnar á uppboð

Málverkið Kínverska stúlkan fer brátt á uppboð en málverk þetta er það verk í sögunni sem flestar eftirprentanir hafa verið gerðar af.

Það var rússneski málarinn Vladimir Tretchikoff sem málaði verkið árið 1952 í Höfðaborg í Suður Afríku. Fyrirsæta hans var 17 ára gömul kínversk stúlka, Monika Sing Lee sem vann í þvottahúsi frænda síns í borginni.

Málverkið sem einnig varð þekkt sem Græna konan varð að einu af mikilvægstu einkennum svokallaðrar poppmenningar í Bretlandi á sjötta áratug síðustu aldar. Það er málað í mjög skærum litum, andlit Sing Lee er grænt og varir hennar rúbínrauðar.

Tretchikoff hlaut viðurnefnið "King of Kitsch" í framhaldi af vinsældum Kínversku stúlkunnar en hann hataði það viðurnefni ætíð og vildi láta taka sig sem alvarlegan listamann. Hann lést árið 2006.

Núverandi eigendur verksins keyptu það af Tretchikoff þegar hann kom til Bandaríkjanna á sjötta áratugnum og hefur það verið í eigu sömu fjölskyldunnar í yfir 60 ár. Reiknað er með að um 100 milljónir króna fáist fyrir Kínversku stúlkuna á uppboði sem haldið verður í mars.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×