Fótbolti

Eiður samdi við Club Brugge til 2014 | Mætir Cercle í fyrsta leik

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Nordic Photos / Getty Images
Eiður Smári Guðjohnsen er genginn til liðs við belgíska úrvalsdeildarfélagið Club Brugge. Það staðfesti félagið á heimasíðu sinni í kvöld.

Eiður Smári kemur frá grannliðinu Cercle Brugge eftir stutta dvöl þar en hann samdi til Club til loka tímabilsins 2014.

Eiður Smári hefur spilað vel með Cercle Brugge síðan hann kom til félagsins í haust. Alls skoraði hann sex mörk í þrettán leikjum.

Hann var með samning út tímabilið en var þó heimilt að fara frítt til félaga utan Belgíu þann 31. janúar næstkomandi. Belgísk félög þurftu hins vegar að greiða fyrir hann og er talið að Club hafi greitt Cercle 50-85 milljónir króna.

Þessi mynd birtist á heimasíðu Club Brugge í kvöld.
Eiður Smári mun gangast undir læknisskoðun á morgun og fara á sínu fyrstu æfingu á þrijðudag. Líklegt er að hann spili sinn fyrsta leik með liðinu á sunnudag - gegn Cercle Brugge í grannaslag.

„Ég er ánægður með þessi félagaskipti. Ég er sannfærður um að Eiður muni hafa góð áhrif á liðið, bæði innan vallar sem utan,“ sagði Arnar Grétarsson, yfirmaður knattspyrnumála hjá Club Brugge.

„Þessi félagaskipti gera mig mjög ánægðan. Ég hlakka til að koma til sterks liðs og keppa um titla. Ég sendi Cercle Brugge líka mínar bestu óskir,“ er haft eftir Eiði Smára sjálfum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×