Erlent

Varð hjólreiðamanni að bana og fékk sjö þúsund króna sekt

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Leigubílstjóri á Englandi hefur verið sektaður um 35 pund eða sem nemur um sjö þúsund krónum fyrir að verða valdur að dauða tvítugs hjólreiðamanns.

Slysið átti sér stað í júní síðastliðnum. Þá keyrði leigubílstjórinn á hjólreiðakappann sem kastaðist upp á vélarhlífina. Þar lá hann á meðan bifreiðin ók um 90 metra vegalengd þar til hún hafnaði á tré.

Hjólreiðakappinn, hinn tvítugi Tom Ridgway, var fluttur á sjúkrahús í skyndi en lét lífið af sárum sínum skömmu síðar.

Leigubílstjórinn, sem kom fyrir rétt í síðustu viku, sagðist þegar hafa skilað inn leigubílstjóraréttindum sínum að eigin frumkvæði. Hann viðurkenndi gáleysi við akstur og uppskar fyrrnefnda sekt auk þriggja refsipunkta.

Málið hefur vakið spurningar meðal almennings í Englandi og þá sérstaklega hjólreiðamanna. Ekki hefur enn komið fram hvernig slysið bar að og þykir sektargreiðslan lág.

„Við óskum ekki eftir harðari refsingu fyrir ökumanninn. Lága sektin vekur þó spurningar um lögin í landinu," sagði Debbie Sarjant, frænka Ridgway, í viðtali við Guardian.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×