Enski boltinn

Everton upp fyrir Arsenal

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Nordicphotos/Getty
Everton vann góðan 2-1 útisigur á Newcastle í viðureign liðanna í 21. umferð ensku úrvalsdeildarinnar í knattspyrnu í kvöld.

Papiss Cisse kom heimamönnum yfir strax á 2. mínútu og fagnaði markinu vel. Flest bendir til þess að Demba Ba gangi í raðir Chelsea og því útlit fyrir aukinn spilatíma Cisse hjá Newcastle.

Jafnræði var með liðunum í fyrri hálfleik en undir lok hans jöfnuðu gestirnir frá Liverpool metin. Leighton Baines skoraði þá eitt af mörkum tímabilsins úr aukaspyrnu af löngu færi. Vinstri bakvörðurinn hefur farið á kostum á leiktíðinni og samkeppnin um stöðu vinstri bakvarðar í enska landsliðinu, þar sem Ashley Cole hefur verið í aðalhlutverki, hefur sjaldan verið harðari.

Everton tryggði sér sigurinn eftir stundarfjórðung í síðari hálfleik. Victor Anichebe skoraði þá eftir góðan undirbúning Króatans Nikica Jelavic.

Everton lyfti sér upp fyrir Arsenal í fimmta sæti deildarinnar með sigrinum. Everton hefur 36 stig en Newcastle situr í 15. sætinu með 20 stig.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×